top of page

Pétur Þorsteinsson

 

„Þegar spurt er hverjir séu helstu frumkvöðlar í skólamálum á Íslandi á undanförnum áratugum er ekki víst að öllum komi nafn Péturs Þorsteinssonar í hug! Svo ætti þó að vera!

 

Pétur var skólastjóri á Kópaskeri frá 1979 og með hléum til 2005 og leiddi þar skólastarf þar sem einstaklingsmiðað nám var haft í hávegum löngu áður en þetta hugtak varð á annarra vörum. Og það sem meira var - einstaklingsmiðunin náði inn í skólastofurnar til nemendanna - en var ekki bara fagurgali í skólanámskrá! Nemendur tóku raunverulega ábyrgð á námi sínu. Skólinn var auk þess menningarmiðstöð í þorpinu og tengdist samfélaginu með margvíslegum hætti. Í Grunnskólanum á Kópaskeri var tölvu- og upplýsingatækni nýtt í námi og starfi löngu á undan öðrum skólum. Og í þessum litla skóla var lagður grunnur að tölvusamskiptum milli skóla hér á landi. Þessa þróun leiddi Pétur Þorsteinsson. Hann er einhver sannasti og vitrasti hugsjónamaður sem ég hef kynnst!“

 

Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands  

„Rottusálfræðin verst“

Rætt við Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri

–fyrri hluti–

 

 

Sá sem þetta ritar heyrði nafn Péturs Þorsteinssonar fyrst eftir að hafa starfað við kennslu í nokkur ár. Brátt fór hann að heyra nafnið ítrekað, ævinlega í því samhengi að eitthvað nýtt og spennandi í skólaþróun væri nú ekki nýrra en svo að Pétur hefði gert það nákvæmlega sama í skólanum á Kópaskeri fyrir áratugum.  Eftir að hafa flett gegnum gömul blöð var upplifunin eitthvað á borð við það sem ímynda má sér að fanginn í hellislíkingu Platóns hafi reynt þegar hann losaði af sér böndin og gekk út úr helli sínum og sá fyrirmyndir hverra skuggar höfðu fram að því verið allur veruleiki hans í botni hellisins. Sá skóli sem Pétur veitti forystu á Kópaskeri var stórmerkilegur fyrir margra hluta sakir. Nýleg netskrif fyrrum nemanda skólans sem nú býr í erlendri stórborg lýsa því hve afburða góður undirbúningur skólinn var fyrir lífið utan þess litla kassa sem alltof margir virðast búa í alla ævi og eru svo jarðaðir í. Það var ekki alveg auðsótt mál að fá Pétur í viðtal. Hann tók því að vísu ljúflega en honum er lítið um það gefið að hreykja sér af því sem hann hefur gert. Hann lifir fyrir líðandi stund og þessi misserin á barátta hans gegn útskúfun og refsistefnu í fíkniefnamálum hug hans allan. Árum saman hefur hann barist gegn því sem hann telur miskunnarlausa hörkupólitík gegn ungmennum og öðru varnarlausu fólki. Og eftir að hafa lengst af verið hrópandi í eyðimörkinni er nú svo komið að margar þjóðir hafa tekið upp þá mánnúðarstefnu sem Pétur hefur talað fyrir og umræða á þeim nótum er orðin hávær hér á Íslandi. Það væri ekki í fyrsta sinn sem Pétur reynist á undan samtíma sínum. 

 

Fyrsta spurningin til Péturs var eins hefðbundin og hugsast getur. Hver er Pétur Þorsteinsson?

 

„Ég fæddist 6. mars 1949 á Daðastöðum í Núpasveit. Faðir minn var af bændum kominn í allar ættir en móðir mín var dóttir skútuformanns á Bíldudal. Í hennar ættum voru sjómenn, smiðir og jafnvel fálkafangarar Danakóngs. Nágrannar mínir í æsku voru nítjándualdarfólk af bestu skúffu og bókmenntir og ljóðlist voru í hávegum höfð á flestum bæjum. Kaupfélag Norður-Þingeyinga sá um veraldlegar þarfir fólks en séra Páll Þorleifsson á Skinnastöðum þær andlegu. Þetta var ágætis kokkteill. Enginn var ríkur og enginn bláfátækur – en mikilvægast var að heyra aldrei talað illa um nokkurn mann, utan fáeina krata og sjálfstæðismenn í Reykjavík. Pabbi naut þess að rífast við þá í útvarpinu og hafði jafnan betur. Veröld sem var.

 

Ég var svo stálheppinn að sleppa að mestu við barnaskóla og hafði þess í stað tíma til að lesa Lestrarfélag Núpsveitunga upp til agna, auk bókasafns heimilisins. Grímur Thomsen, Þorsteinn Erlingsson og Steingrímur voru mínir menn í bernsku, auk Grettis Ásmundarsonar og Línu langsokks. Unglingaskóla sótti ég í Skúlagarði og Lundi í Axarfirði og eftir landspróf lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri. Í MA lærði ég að meta áfengi, kosti uppreisnargirni umfram þægð, og umfram allt að efast um viðtekin sannindi. Satt að segja leiddist mér staglið svo óskaplega að ég sagði mig ítrekað úr skóla til að sleppa við að vera rekinn. Mér hefur alla tíð verið fyrirmunað að læra samkvæmt fyrirmælum, en haft yndi af því að sökkva mér í viðfangsefni sem heilla mig.

 

Eftir stúdentspróf innritaði ég mig í líffræði í HÍ og ætlaði mér að verða fuglafræðingur. Verteraði yfir í félagsfræði þegar mér varð ljóst að fugla eða aðrar skepnur í heilu líki bæri sennilega ekki á góma fyrr en undir lok BS náms. Lífræn og dauðræn efnafræði í tvö ár var ekki heillandi kostur. Félagsfræðin var skárri, en Fylkingin, Mokka kaffi og Naustið voru miklu ánægjulegri skólastofur en Háskóli Íslands. Sleit endanlega námi í félagsvísindum með ófrávíkjanlegri kröfu um að skrifa lokaritgerð fyrsta árs, hjá prófessor Ólafi Ragnari Grímssyni, um efnið „Þingræðisskipulagið er prump“. Engu að síður hef ég enn mikinn áhuga á félagsvísindum, einkum afbrotafræði, og er sjálfmenntaður félagsdýrafræðingur að eigin sögn.“  

 

Hvernig stendur á því að þú varðst skólamaður?

 

„Það var sögulegt stórslys enda var ég harður á móti skólum. Sumarið 1971, eftir mislukkað nám í líffræði og félagsfræði, ákvað ég að gerast bóndi í félagi við tvo vini mína. Við stofnuðum Félagsbúið á Daðastöðum, þrír ungir hippar með hár niðrundir olnboga og rangar skoðanir á öllum hlutum. Það þótti sveitungum mínum ekki ónýtur liðsauki og KNÞ lánaði okkur byggingarefni til að snara upp stærstu fjárhúsum á landinu, auk feiknalegrar votheyshlöðu og fyrsta fjölbýlishúsi í sveit á Íslandi. Í þá daga hjálpuðust menn að við byggingar; sveitungarnir hjálpuðu okkur og við þeim, eftir því sem unnt var. Engum datt í hug að nefna peninga.

 

Til að fjármagna kaup á International Harvester dráttarvél, plóg og herfi, gerðumst við félagar kennarar veturinn 1971 til 1972, en ég varð skólastjóri í Grímsey. Þá hafði ég enga bók lesið um skólamál aðra en Summerhill. Grímsey var ekki feitt brauð fjárhagslega en ákaflega lærdómsríkt og þar kynntist ég góðu fólki sem enn eru vinir mínir. Nemendur áttu að vera tíu, en urðu ellefu þegar ungur drengur, sex vetra, bankaði uppá og sótti um skólavist. Það var auðsótt mál. Eldri deildin var í skóla fyrir hádegi en sú yngri eftir hádegi. Ég var einn um alla kennslu og það var talið 80% starf.

 

Þrátt fyrir óbeit mína á skólum var ég svo fastur í hefðinni að ég eyddi löngum tíma í að semja stundaskrár fyrir deildirnar mínar tvær á meðan bóndinn á næsta bæ stóð í heimaslátrun. Riffilskotin voru viðeigandi undirleikur við mitt gagnslausa puð. Eftir viku kennslu rann upp fyrir mér ljós. Stundaskrár voru hrein fjarstæða í Grímsey og í tilefni af þeirri hugljómun bárum við þær á eld útá tröppum. Þess í stað ákváðum við að velja verkefni vikunnar á reglulegum fundum og þar hafði hver maður eitt atkvæði og mitt vóg engu þyngra en atkvæði nemenda. Það kom fyrir að við tókumst harkalega á um verkefni vikunnar. Mér er einn fundur sérlega minnisstæður, en þá lagði ég til að við notuðum góða veðrið og stunduðum rannsóknir í fjörunni. Nemendur í eldri deild mótmæltu einarðlega og sögðust bókstaflega ekkert kunna í málfræði og vildu nota vikuna til að bæta úr því. Eftir snörp átök gengum við til atkvæða og tillaga mín var felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Eftir vikuna voru nemendur orðnir ansi sleipir í málfræði og skemmtu sér við að læra fornöfn utanað. Á öðrum fundi varð niðurstaðan sú að við þyrftum bara eina skólareglu – það á að vera vinnufriður í kennslustofunni og þeir sem ekki sætta sig við það verða að ganga út. Ég var sá eini sem var rekinn út fyrir að trufla námið með sagnagleði og tómu blaðri. Sat frammi á gangi það sem eftir var af tímanum og nagaði mig í handarbökin. Nemendur mínir í Grímsey kenndu mér meira en ég þeim. 

 

Þrátt fyrir reynsluna í Grímsey voru hugmyndir mínar um skólastarf enn að mestu ómótaðar, enda leit ég á mig sem bónda en ekki kennara. Kenndi samt tvo vetur á Raufarhöfn og þrjá í Lundi til að eiga fyrir salti í grautinn og líkaði það stórvel, en búskapurinn var fjarskalega óarðbært basl. Vorið 1977 ákvað ég samt að leggja kennsluna á hilluna og reyna þess í stað að sinna búinu sem þá var orðið ansi stórt. Svo kom harða vorið 1979, ég varð heylaus með næstum 700 ær á fóðrum og flestar tvílembdar. Það var hroðaleg lífsreynsla að standa því sem næst í sporum Bjarts heitins í Sumarhúsum. Um haustið bauð oddvitinn mér skólastjórastöðuna við Núpasveitarskóla, sem ég þáði með þökkum, enda búskapurinn hruninn og draumurinn um hinn frjálsa bónda dauður. Sumarið 1980 skráði ég mig í réttindanám við Kennaraháskólann og á mér dundu endalausir kúrsar um sálfræði af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum, sem mér fundust hver annarri voðalegri og rottusálfræðin verst. Hana hataði ég af lífs og sálar kröftum og sat um að skrópa úr fyrirlestrum en grúska þess í stað á bókasafninu hjá Kristínu Indriðadóttur á meðan verstu sálfræðihryðjurnar gengu yfir.

 

Í einni slíkri heimsókn á bókasafnið fann ég pappakassa með ljósritum úr ýmsum áttum. Ein greinin var eftir Björn Bergsson og fjallaði um John Holt og kenningar hans. Það varð sprenging í hausnum á mér – loksins hafði ég rekist á kenningasmið sem sagði mér eitthvað af viti um nám og kennslu. Ég tók leigubíl vestur í Bóksölu stúdenta og pantaði allar bækur eftir John Holt sem fáanlegar voru á prenti. Þann dag varð ég ástríðumaður um uppeldismál en lagði réttindanámið jafnframt á hilluna. Fannst það hrein tímasóun með heiminn fullan af almennilegum bókum um uppeldi og heimspeki. Afskólunarmennirnir voru bestir enda þorðu þeir að ráðast á kerfið sjálft og fáránleika þess. Lauk réttindanáminu tíu árum síðar að kröfu Jónasar Pálssonar og fleiri góðra vina í KHÍ. Ég var með öðrum orðum réttindalaus fyrstu tuttugu árin sem ég kenndi og stýrði skólum. Mér líkaði vel að vera boðinn upp árlega og að sveitarfélagið gæti losnað við mig ef því svo sýndist.“ 

 

Einhverjir eftirminnilegir samferðamenn?

 

„Ég er slíkur gæfumaður að hafa kynnst fólki af öllum stigum þjóðfélagsins – frá íbúunum í kjallaranum, sem fæstir vilja þekkja, auk fólksins á þremur miðhæðum og þurrklofti samfélagsins. Ég gæti nefnt fáeina krimma og róna sem ég met umfram aðra menn, en sleppi því þeirra vegna. Þeir vilja sumir síður láta bendla sig við skólastjóra.

 

Gamalt fólk í Núpasveit sagði mér sögur og ævintýri í rökkrinu áður en kveikt var á tíu línu lampanum. Ég lék mér barnið á gólfinu á meðan pabbi las nítjándu aldar skáldin upphátt sér til unaðsbótar. Mamma kenndi mér umburðalyndi og réttlætiskennd. Séra Páll á Skinnastöðum kenndi mér að tala við börn með því að tala við mig eins og vitiborið eintak en ekki óvita. Angantýr Einarsson er ógleymanlegur íslenskukennari, Bragi Kristjónsson kenndi mér í landsprófi að bera aldrei virðingu fyrir nokkrum manni vegna stólsins sem hann situr á, en eingöngu vegna góðra verka. Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur, kenndi mér að forðast leikinn „köttur og mús“ í kennslu – að mikilvægara er að skilja einn hlut vel en marga illa og að námsfúsk er andstyggð. Samstarfsfólk mitt á öllum æfiskeiðum og nemendur umfram alla aðra. Verkamenn, sjómenn, bændur, smiðir. Sturla Kristjánsson, Kristján Ármannsson kaupfélagsstjóri og oddviti, Sif Vígþórsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Rúnar Sigþórsson, Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Magnhildur Björnsdóttir skólaritari á Hallormsstað, Guðrún Kristjánsdóttir samkennari minn á Kópaskeri. Listinn er ótæmandi. Samferðamenn eru háskólar mínir og ég er gæfumaður að hafa notið samfylgdar þeirra um lengri og skemmri tíma.“  

 

Koma einhver eftirminnileg viðfangsefni upp í hugann?

 

„Fyrstu ár Grunnskólans á Kópaskeri eru vafalaust eftirminnilegustu ár æfi minnar, enda tókumst við þá í alvöru á við spurninguna um tilgang skólastarfs. Anna Helgadóttir, Helga Björnsdóttir og Iðunn Antonsdóttir voru burðarásar í því ævintýri. Ekkert var sjálfgefið, skólinn var óskrifað blað. Við vorum þó sammála um að leita fyrirmynda í opna skólanum, breska.

 

Haustið 1982 var nýtt skólahús vígt á Kópaskeri; glæsileg bygging, teiknuð af dr. Magga Jónssyni. Strax var ákveðið að kaupa nýjan búnað; húsgögn, kennslutæki, allt. Mikilvægasta ákvörðunin var að skilja allar hefðir og steinbörn eftir í gamla skólahúsinu og flytja ekkert inn í nýja skólann nema það sem nauðsynlegt reyndist eða gagnlegt. Fyrsti veturinn, 1982 til 1983, var eftirminnilegur, enda stóð í okkur að smíða stýrikerfi sem þjónaði nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Um miðjan vetur fórum við öll í vísindaferð til Reykjavíkur til að kynnast starfi opinna skóla. Við heimsóttum Fossvogsskóla, Vesturbæjarskóla, Æfingaskóla KHÍ og fleiri. Alls staðar urðum við vitni að frábæru skólastarfi og allir tóku okkur eins og hvítum hestum. Engu að síður yfirgáfum við borgina með hugann þrútinn af spurningum og efasemdum. Best er að ég tali eingöngu fyrir sjálfan mig, en mér fannst of áberandi, að þrátt fyrir framúrskarandi kennslu var sumt af því sem ég upplifði einungis betri og mannúðlegri aðferð til að koma sama gamla grautnum ofaní nemendur. Mér fundust líka sum stýrikerfin of skrifræðiskennd, nákvæm og íþyngjandi fyrir nemendur og kennara. Um sumarið var ég mánuð í London og heimsótti skóla, sumt voru elítuskólar en aðrir fátæklegir alþýðuskólar í miðborginni. Hver og einn hafði kosti til að bera sem ég hafði ekki áður upplifað. Ég nefni tvö dæmi.

 

Prior Weston er elítuskóli, undir bæjarvegg Barbican Center, og skólastjórinn, Mr. Henry Pluckrose, var heimsþekktur skólamaður. Það voru tvö verkefni í gangi í skólanum þegar mig bar að garði. Annars vegar þemavinna um risaeðlur. Á tröllauknu borði voru bækur um risaeðlur í hrúgum og bingjum, allt frá plastbókum sem ætlaðar voru notkunar í baðkerjum og upp í grjóthörð fræðirit. Nemendur á öllum aldri, frá fimm ára til ellefu ára, gengu í hauginn og völdu sér lesefni við sitt hæfi. Eldri nemendur aðstoðuðu þá yngri, sem hugsanlega höfðu valið bækur með of snúnum texta. Ég man ekki eftir því að kennarar væru áberandi og þeir voru ekki að kenna – þeir voru ráðgjafar og aðstoðarfólk. Starfið var nám en ekki kennsla. Eftir að skóla lauk fékk ég stundarkorn til að ræða við Mr. Pluckrose og spurði meðal annars útí lestrarkennslu í skólanum. Skólameistarinn var alveg gáttaður á svo bjánalegri spurningu. „Það hvarflar ekki að okkur að kenna lestur. Sástu ekki lestrarnámið í risaeðlustofunni? Börn lesa það sem þau verða að vita, hugsanlega með aðstoð jafningja – en lestrarkennsla, hvílík fjarstæða!“ Þannig tætti Mr. Pluckrose ranghugmyndir mínar niður, lið fyrir lið, og endaði á spurningu sem breytti lífi mínu: „Pétur, þú veist greinilega allt um nám og kennslu. Segðu mér að lokum hvað átta ára barn þarf að vita?“ Við þeirri spurningu átti ég ekkert svar, enda er það ekki til þótt spakir menn hafi rótað ýmsu uppsópi inn í doðranta og kallað námskrár.

 

Um kvöldið var skemmtun í skólanum þar sem bresk kráarstemmning frá miðri nítjándu öld var endursköpuð. Mr. Pluckrose var „master of seremonies“, í kjólfötum með pípuhatt, í lítilli stúku uppá vegg í salnum og kynnti skemmtiatriðin á svellandi kokkney ensku. Í forstofunni stóð áma á stokkum og yfirkennarinn hrópaði „Ale and cheese, buy ale and cheese, the finest in London. Ale and cheese!“ Skemmtiatriðin voru frábær, nemendur og kennarar, klæddir í samræmi við tíðarandann, sungu dónalega söngva og dönsuðu tvíræða dansa og höfðu tileinkað sér viðeigandi málýsku. Það var ekkert „fínt“ eða „fágað“ enda breskar krár á nítjándu öld engir guðsbarnastaðir. Foreldrarnir voru í sjöunda himni, með ölkrúsina og ostbitann, og sungu með af hjartans list.

 

Fátæki skólinn í Fowler Street er ekki síður eftirminnilegur. Þar fékk ég að fylgjast með kennslu ungrar konu frá Íran. Nemendurnir voru þrjátíu og þrír og skiptust í þrjá jafna hluta – þriðjungurinn var frá Bangladesh, annar kínverskur og sá þriðji bresk lágstéttarbörn. Kennarinn kunni hvorki bengalmál né kínverku og bresku börnin höfðu mjög takmarkaðan orðaforða, hugsanlega þúsund til fimmtánhundruð orð, sagði kennarinn mér. Daginn sem mig bar að garði var lokaæfing í bekknum fyrir ferð á markaðinn. Sumir seldu ávexti og grænmeti úr pappír, aðrir keyptu fyrir pappírspeninga. Allir höfðu skrapað saman fáeina skildinga til að nota daginn eftir í alvörunni. Þarna var verið að kenna börnum að lifa og bjarga sér, nær mállaus í framandi menningu. Þetta er sennilega fínasta skólastarf sem ég hef upplifað og frá þeirri stund að ég gekk uppnuminn út á götuna hefur aldrei hvarflað að mér að væla undan erfiðleikum í íslenskum skólum. Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi og ef kennarar mega og þora að hafna stöðluðum aðferðum.

 

Heimsókn í hina dýrðlegu háskólabókabúð, Dillons, var einnig notadrjúg. Ég sankaði að mér bókum um uppeldisheimspeki og gagnrýnið skólastarf og las eins og óður maður á stamkránni minni og hótelinu. Þarna mótuðust hugmyndir mínar að stórum hluta. Ég skildi loksins að það skiptir næstum engu máli hvað lítil börn gera í skólanum, en öllu máli hvernig þau gera það sem þau gera og hvers vegna þau gera það sem þau gera. Hvernig sú uppgötvun birtist í starfi Grunnskólans á Kópaskeri er efni í aðra grein.

 

Eftir að ég settist í helgan stein, vorið 2009, hef ég helgað líf mitt andófi gegn útskúfunar og refsihyggju, einkum í svokölluðum fíkniefnamálum. Ég tel heilaga skyldu skólamanna að verja ungt fólk fyrir árásum og ofsóknum valdstjórnarinnar. Það er ófyrirgefanlegur glæpur að færa tugi þúsunda ungmenna á sakaskrá fyrir brot gegn kemískum kreddum sem eiga sér enga stoð og leysa engan vanda. Vonandi sér fyrir endann á því þjóðargeðrofi að reka fíknistríð gegn ungu fólki og hampa þeim sem á því traðka.“ 

 

Hverju ertu stoltastur af ef þú lítur til baka? Einhver eftirsjá?

 

„Ég hef ekki tamið mér af vera stoltur af verkum mínum, enda ekkert tilefni til þess. Ég hef lifað og unnið mér til skemmtunar og uppskorið ríkulega. Ég hef lagt hvern kafla að baki eins og gamalt dagblað í bréfakörfuna, svo ég steli ögn frá Sigfúsi Daðasyni. Stundum sé ég dálítið eftir því að hafa álpast út í að stofna Imbu – tölvumiðstöð skóla og síðar Íslenska menntanetið. Eftir á að hyggja var það gagnslítið brölt. Engu að síður var lærdómsríkt að fá tækifæri til að heimsækja annan hvern skóla á Íslandi og upplifa hversu andi þeirra var ólíkur frá skóla til skóla. Sums staðar var andinn svo glaður að ég átti rétt eins von á að það streymdi rauðvín úr kaffikönnunni á kennarastofunni. Í öðrum var hann svo þungur og lamandi að mér fannst sem Glámur sæti á mæniásnum og berði fótastokkinn.

 

Ég verð þó að viðurkenna að ég er ögn stoltur yfir litlu félagi sem ég á dálítinn þátt í og heitir Snarrótin – samtök um borgaraleg réttindi. Gestir Snarrótarinnar, Annie Machon, Ethan Nadelmann og David Nutt eru öll í hópi þeirra samferðamanna sem kennt hafa mér mest og eru meðal minna bestu vina. Það er mikilvægt að opna gluggann þegar óloftið og forheimskunin ætla allt að drepa. Ég er líka dálítið stoltur af smíðastofunni á Hallormsstað.“

 

 

 

 

Framhald í næsta eintaki

 

bottom of page