top of page

Hvernig á ég að flippa?

Dæmi um notkun efnisins í speglaðri  / flippaðri kennslu

Að venda sinni kennslu í kross

Flippuð kennsla (spegluð kennsla / vendikennsla) á sér margar hliðar og hægt er að útfæra hana með margvíslegum hætti. Í aðalatriðum hnitast hún um að breyta hefðbundinni verkaskiptingu kennara og nemenda. 

Dæmi um skipulag 
„Heimanámið“

Það er í sjálfu sér ekkert sem segir að flippuð kennsla krefjist þess að nemendur horfi í myndböndin eða kynni sér kennsluefnið heima. Aðeins að sá hluti námsins fari fram án þess að tími undir handleiðslu kennara sé nýttur í það. 

Tími með kennara

Algengt er að kennari afhendi verkefni í upphafi tímans. Nemendur vinna síðan verkefnið. Það krefst þess að nemendur séu áður búnir að kynna sér kennsluefnið. Margir kennarar kjósa að hafa verkefnið á pappír þrátt fyrir að nemendur hafi aðgang að tækjum. Aðrir kjósa að hafa verkefni rafræn.

Hlutverk kennara

Við fyrstu sýn getur litið svo út sem hlutverk kennarans sé tilviljunarkennt eða lítið vexti. Svo er þó alls ekki. Kennarinn hefur það hlutverk að fylgjast með framvindu náms, samskiptum nemenda innbyrðis, námsaðferðum, viðhorfum og afköstum. Þá leiðir hann nemendur áfram sem lenda í ógöngum eða þrengingum. Hann hjálpar nemendum að læra og reynir að auka hæfni þeirra, viðhalda metnaði og hvatningu.

Rafræn flippkennslustund
Undirbúningur tímans
 

Hér verður miðað við að Qr-kóðar séu notaðir. Þó er auðvelt að aðlaga efnið að hvaða skipulagi sem er. Kennarinn getur t.d. notað Blogger (sem fylgir ókeypis með Gmail-netfangi ásamt Youtube-aðgangi) og setur hvert verkefni sem eina færslu á bloggsíðu. Hann getur líka látið stuttan texta fylgja Qr-kóðanum sjálfum.

 

  Hann býr til þrjú verkefni úr hverju kennslumarkmiði tímans. Fjöldi verkefna og umfang ræðst af samsetningu námshóps, lengd kennslustunda og nýtingu rýmis – ásamt öðrum þáttum.

 

Í þessu tilfelli er miðað við að nemendur sé sumir mjög orkuríkir og fjörugir og því er hreyfing sett inn sem markmið með tímanum. Fyrir tímanum liggja fjögur markmið í eðlisfræði tengd flutningi varma:

 

1. Að nemandi þekki þrjár tegundir varmaflutnings.

 

2. Að nemandi geri sér grein fyrir sambandi hreyfingar sameinda og hitastigs.

 

3. Að nemandi geti greint mismunandi tegundir varmaflutnings í dæmum sem innihalda fleiri en eina tegund hans.

 

4. Að nemandinn geri sér grein fyrir með hvaða hætti varmageislun er nýtt í björgunarstörfum.

 

Nemendum er sett fyrir að horfa á myndband um flutning varma fyrir tímann.

 

Kennarinn hengir QR-kóða upp víða um kennslustofuna / skólahúsnæðið / skólalóðina / hverfið og fjarlægðin ræðst af þörfum kennslustundarinnar. Hver kóði er skýrt merktur með tölu frá einum og upp í tólf. 

 

Nemendur nota spjaldtölvur/síma sem eru nettengdir og vinna ýmist einir eða í hópum.

 

Þeir eru sendir af stað til að finna QR-kóða sem merktur er með „1“. 

 

Ef nettenging eða tækjaeign er af skornum skammti má sleppa QR-kóðum og prenta þess í stað verkefnin beint.

 

Kosturinn við QR-kóðana eru að í stað skrifaðra fyrirmæla getur kennari tekið upp munnleg fyrirmæli sem nemendur horfa á í stað þess að lesa.

Flipp í hnotskurn

1. Finndu eða búðu til efni og verkefni.

 

(Verkefnabanki)

 

2. Settu nemendum fyrir.

 

3. Fylgstu með lausn nemenda á verkefninu í kennslustund og gríptu inn í þar sem þörf krefur.

 

4. Farðu yfir árangur nemenda og vinnulag og aðlagaðu efni / aðferðir eftir þörfum nemenda í samráði við umsjónarkennara, námsráðgjafa, foreldra og nemandann.

 

Hafðu í huga?

Hvernig vinnur nemandinn?

 

Er nemandinn sjálfbjarga?

 

Getur nemandinn starfað í hópastarfi?

 

Getur nemandinn komið orði að hugsunum sínum?

 

Getur nemandinn sýnt skilning sinn í framkvæmd?

 

Hefur nemandinn fjölbreytta hæfni?

 

Er skólasamfélagið meðvitað um þarfir nemandans?

 

Er nemandinn hæfur um að búa til flippefni sjálfur?

 

Fá allir athygli í hverjum tíma?

 

Gleymist einhver?

2010 - present

2010 - present

Tíminn hefst

Nemendur finna verkefni 1. Þeir geta sent lausn við því til kennarans með tölvupósti, leyst það á pappír, leyst það með því að koma á upphafsstað og sýna kennara svarið. Hvernig sem það er útfært þá þarf kennari að vera í aðstöðu til að meta svör nemenda meðan tímanum vindur fram. Það er lítið mál ef verkefnið er unnið innan einnar og sömu kennslustofunnar. Þá gengur kennarinn um. Eins þarf kennari að vera aðgengilegur nemendum sem lenda í vandræðum.

 

Kennari þarf með einhverjum hætti að staðfesta lausnir nemenda. Á blaði getur þetta verið reitur sem kennari kvittar í, stimpill eða einhver önnur aðferð. Nota má Moodle, Edmodo, Mentor eða önnur kerfi til utanumhalds ef skólinn notar þau fyrir.

 

Kennarinn hittir alla nemendur í tímanum og fer yfir niðurstöður þeirra. Í þeim tilfellum sem skilningur nemenda er í samræmi við markmið tímans er hlutverk kennarans fyrst og fremst að hvetja og hrósa. Í þeim tilfellum sem skilningi er ábótavant þá er það hlutverk kennarans að benda nemendum á að skoða tiltekin atriði betur – eða í tilfellum þar sem hann metur það best – að útskýra það sem nemendur ekki ná. Hjálp kennarans fer eftir þörfum nemenda og þær eru mismunandi.

 

Nemandi sem leyst hefur verkefni 1 þannig að skilningur hans eða hæfni er augljós er næst sendur í að leysa verkefni 4. Nemandi sem þarf frekari þjálfun er næst settur í verkefni 2 – og jafnvel 3.

 

Nemandi sem klárar tímann hraðar en aðrir getur að sjálfsögðu farið að undirbúa sig fyrir næstu tíma með því að horfa á myndbönd og glósa ef við á.

 

Í lok tímans er gott að kennari taki saman bókhald eða yfirfari stöðu einstakra nemenda. Nemandi sem marga tíma í röð þarf að vinna mörg verkefni getur þurft aðstoð námsráðgjafa eða frekari leiðsögn. Nemandi sem klárar verkefni mjög hratt og af miklu öryggi gæti þurft þyngri verkefni eða leið til að komast hraðar yfir námsefni. 

 

Dæmi um verkefni

Þessi verkefni gætu verið myndbönd í stað texta. Við myndbandaleiðbeiningar má endilega nota sýnikennslu eða ítarlegri leiðsögn og meira krefjandi verkefni.

 

1. Varmi getur flust á milli staða með þrennum hætti. Nefndi hinar þrjár tegundir varmaflutnings og lýstu í stuttu máli hverri tegund.

 

2. Að hvaða leyti er varmageislun frábrugðin hinum tveim tegundum varmaflutnings.

 

3. Ef heit mjólk er sett út á kaldan graut hitnar grauturinn en mjólkin kólnar. Þessi breyting á sér stað á sameindunum sjálfum sem mjólkin og grauturinn er samsettur úr. Hvað gerist? 

 

4. Varmi er til marks um hreyfiorku sameinda. Hvað merkir þessi fullyrðing?

 

5. Finndu leið til að hita á þér kinnarnar með því að snerta þær. Sýndu kennara hvernig þú ferð að þvi og útskýrðu hvað er að gerast við sameindirnar í kinnunum á þér.

 

6. Grautur er hitaður í potti. Málmsleif er notuð til að hræra reglulega í grautnum. Eftir smástund er sleifin orðin mjög heit ef maður tekur um hana. Af hverju?

 

7. Vatn er sett í pott. Vatnið er hitað upp að suðumarki. Upp úr pottinum stígur gufa. Teiknaðu skýringarmynd af aðstæðum sem sýnir allar tegundir varmaflutnings sem eiga sér stað.

 

8. Ef ofn er í herbergi hitnar fyrst og fremst loftið ofan við ofninn í stað þess að hitinn dreifist jafnt um allt herbergið. Hvernig má reyna að nýta hitann betur?

 

9. Teiknaðu skýringarmynd þar sem allar tegundir flutnings varma koma fram. 

 

10. Samkvæmt þessari frétt var ekki ástæða til bjartsýni þegar ný þyrla kom í björgunarflota Landhelgisgæslunnar árið 2012. Hvaða búnað vantaði í þyrluna og hvernig virkar hann?

 

11. Hvernig kemst hitinn frá Sólinni til Jarðarinnar? 

 

12. Finndu mynd af því hvernig fólk lítur út í hitamyndavélum. Hvað tákna mismunandi litir? Sýndu kennara myndina og útskýrðu

Að búa til Qr-kóða

Það er sáraeinfalt að búa til Qr-kóða eða strikamerki. Eins er lítið mál að sækja forrit/öpp sem lesa slík tákn.

 

Dæmi um ókeypis síðu er QrStuff (qrstuff.com).

 

Ferlið þar er fjórskipt. Fyrst velur þú efnið sem miðla á sem kóða. Það getur verið vefsíða, texti, myndband og fjöldamargt annað. Síðan setur þú inn hlekk á efnið eða skrifa inn textann eða annað sem við á. Loks velur þú lit á kóðann og endar á að kjósa með hvaða hætti þú vilt fá kóðann.

 

Það er almennt mjög fljótlegt að hanna slíka kóða, tekur vanan kennara aðeins nokkrar sekúndur.

 

 

bottom of page